Innlent

Hvetur neytendur til að versla á öðrum dögum ársins

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Margar verslanir eru opnar á frídegi verslunarmanna, sem er einmitt í dag.
Margar verslanir eru opnar á frídegi verslunarmanna, sem er einmitt í dag. Vísir
Formaður VR segir dapurlegt að verslanir bjóði upp á ýmis hátíðartilboð í tilefni frídags verslunarmanna. Hann hvetur neytendur til að versla á öðrum dögum ársins og gefa þar með verslunarmönnum frí í dag.

Fyrir 124 árum síðan var frídagur verslunarmanna haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn. Verslunareigendur tóku þá upp á því að veita verslunarmönnum sínum frí þennan umrædda dag.

Síðan þá hefur dagurinn þróast út í að vera hluti af stærstu ferðahelgi ársins. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttarfélagsins VR hvetur neytendur til að versla á öðrum dögum ársins og gefa þar með verslunarmönnum frí á þessum hátíðardegi.

„Ef það eru fleiri sem gera það og við nýtum samtakamáttinn sem við höfum sem neytendur þá mun ekki borga sig að hafa opið á þessum degi. Fólk má vinna ef það vill, en það er ekki vinnuskylda. Það er ekki hægt að skylda fólk til að vinna á þessum degi. En við getum með neysluhegðun okkar haft áhrif svo sannarlega,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Þá harmar Ragnar það að hinar ýmsu verslanir auglýsi hátíðartilboð í tilefni frídagsins.

„Þá var maður vitni að því að verslanir voru að hafa sérstök hátíðartilboð á þessum degi sem mér finnst ákaflega dapurleg þróun. Við í verkalýðshreyfingunni og almenningur eigum að reyna að halda í þessar hefðir,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×