Sport

Aníta: Ég held ég þurfi að æfa það að nota olnbogana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Vísir/EPA
Aníta Hinriksdóttir fékk ekki skráðan tíma í undanúrslitahlaupi 800 metranna á EM í frjálsum í Berlín í gærkvöldi. Íslenska hlaupakonan var dæmd úr leik af dómara hlaupsins fyrir stimpingar við Svía.

Tími Anítu hefði hvort sem ekki nægt til að komast í úrslitin en íslenska stelpan var pikkuð út úr hópnum og send í skammakrókinn.

„Vð vorum bara allar í einum hópi að slást,“ sagði Aníta Hinriksdóttir í samtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í dag.

Aníta var í harðri baráttu við hina sænsku Lovísu Lindh í hlaupinu og oft var lítið pláss til að athafna sig. Lovísa endaði hinsvegar út fyrir brautina á einum tímapunkti og Aníta var þá dæmd fyrir að bera ábyrgð á því.

Tími Anítu hefði ekki dugað og ákvörðun dómarans var ekki kærð. Lovísu Lindh komst aftur á móti í úrslitahlaupið.

Aníta útskýrir sína hlið á barningnum í fyrrnefndu viðtali.

„Í þessum aðstæðum myndast ósjálfrátt barningur. Ég náði ekki alveg að staðsetja mig nægilega vel. Ég held að ég þurfi að æfa það svolítið - að berjast öxl við öxl og nota olnbogana. Þetta er alveg íþrótt með snertingum og í því felst líka ákveðin fegurð,“ sagði Aníta.

Aníta ætlaði ekki að svekkja sig á því að vera dæmd úr leik þar sem að tími hennar hefði hvort sem er ekki nægt til að komast áfram.

„Úr því að maður var ekki inni í úrslitunum þá er það í raun bara þrjóskukeppni að spá í hvort þessi dómur sé rétt niðurstaða,“ sagði Aníta.

Það fylgir sögunni að Aníta og Lovísa Lindh þekkjast vel. Þær hafa oft keppt á móti hvorri annarri og meira segja deilt herbergi.

Aníta Hinriksdóttir náði þannig ekki að fylgja eftir árangri sínum á síðasta Evrópumóti en þá komst hún í úrslitahlaupið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×