Innlent

Spáin fyrir verslunarmannahelgi hefur batnað til muna

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Vísir
Nú styttist heldur betur í verslunarmannahelgina og ekki úr vegi að líta á hvernig veðurspáin lítur út fyrir þessa dagana þegar stór hluti þjóðarinnar verður á faraldsfæti.

Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir spána líta mun betur út í dag en síðustu daga.

„Spáin er ekki orðin fastnegld en það er útlit fyrir rigningu með köflum um mest allt land en þó síst norðaustantil á föstudeginum. Á laugardeginum verða stöku skúrir Norðanlands en styttir upp fyrir sunnan en styttir upp fyrir sunnan. Á sunnudegi og mánudeginum er gert ráð fyrir hægum vindi og björtu veðri um mest allt land, allavega eins og spáin lítur út núna,“ segir Daníel í samtali við Vísi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun: 

Austlæg átt, 3-13 metrar á sekúndu, hvassast syðst. Skúrir S- og V-til, en úrkomulítið NA-lands. Hiti 8 til 18 stig, svalast í þokulofti á annesjum N- og A-lands.

Á miðvikudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt og rigning með köflum um norðanvert landið en stöku skúrir síðdegis sunnantil. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á fimmtudag:

Suðvestlæg átt, 3-8 og skýjað með köflum, en stöku skúrir síðdegis, einkum norðaustanlands. Hiti 8 til 16 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á föstudag:

Suðvestan 5-10 og rigning með köflum en úrkomulítið norðaustantil. Hiti 10 til 15 stig að deginum.

Á laugardag og sunnudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en stöku skúrir norðanlands. Hiti 10 til 17 stig að deginum, hlýjast sunnantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×