Skoðun

Frá konu til konu

Björg Sigurðardóttir skrifar
Opið bréf til forsætisráðherra Íslands:

Komdu sæl Katrín

Ég skrifa þér sem kona til konu. 

Ég fagnaði þegar þú komst til áhrifa í VG, og lagði mitt að mörkum til þess að þú hefðir möguleika á að verða forsætisráðherra þjóðarinnar. Það eru því vissulega vonbrigði að fylgjast með fréttum dag eftir dag og sjá hversu lítið störf kvenna, í þágu kvenna, barna og fjölskyldna eru metin í þeirri ríkisstjórn sem þú stjórnar.

Ég man vel fund í Reykjanesbæ, á vegum VG í aðdraganda kosninga, fyrir mörgum árum. Þar varst þú og þáverandi formaður flokksins ásamt fleiri gestum. 

Ég sem ljósmóðir, sá þar unga barnshafandi konu, þreytta og svanga, sem Steingrímur gleymdi alveg að taka tillit til. Ég hafði orð á því, ekki af því að ég treysti ekki þessari ungu konu til að minna á sig, eða krefjast hæfilega langra vinnudaga, heldur miklu fremur vegna þess að ég sem ljósmóðir ber umhyggju fyrir barnshafandi konum, líka utan formlegra vinnudaga. Það er hluti af okkar starfsskyldum, og við vitum að heilsa verðandi móður er mikilvæg heilsu barnsins sem hún gengur með.

Þessi unga kona sem ég hitti um árið er nú forsætisráðherra Íslands. 

Katrín, oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn. Ég bið þig að taka af skarið, sýna fjármálaráðherra hver það er sem ræður. Sýna að þú hafir bein í nefinu, að þú sért rétt kona á réttum stað. 

Það þarf að semja við ljósmæður, ekki seinna en núna, ef ekki á að verða óafturkræfur skaði á þjónustu við konur. Líf barna og mæðra liggur við.

Samningamál þjóðarinnar eru í molum, en þessu verður að bjarga strax.

Með vinsemd og virðingu

Björg Sigurðardóttir ljósmóðir í 36 ár. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×