Innlent

Gestir í miðjum kaffisopa á Hótel Adam þegar lögreglan mætti til að loka

Birgir Olgeirsson skrifar
Búið er að innsigla dyrnar á Hótel Adam að kröfu sýslumanns.
Búið er að innsigla dyrnar á Hótel Adam að kröfu sýslumanns. Vísir/Elín Margrét
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði Hótel Adam á fimmta tímanum í dag. Þegar fréttastofu bar að garði var verið að undirbúa lokunina. Starfsmaður hótelsins tilkynnti fólki sem sat þar inni að drekka kaffi að verið væri að loka og hófst svo handa við að ganga frá. Skömmu síðar mættu fjórir lögreglumenn, skelltu í lás og settu innsigli á hurðina.

Lögreglan gerði þetta að kröfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en á föstudag mættu lögreglumenn á hótelið til að afhenda forsvarsmönnum hótelsins bréf þess efnis að þeir hefðu 48 klukkustundir til að undirbúa lokunina.

Var tveggja sólarhringar frestur gefinn svo það myndi ekki bitna á ferðamönnum sem áttu bókaða gistingu á hótelinu og hægt væri að gera ráðstafanir þess efnis. Ekki er vitað hvort að einhver hafi verið í gistingu þegar hótelinu var lokað.

Vísir/Elín
Fréttastofa sendi Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fyrirspurn vegna lokunarinnar. Samkvæmt svörum frá embættinu fékk R. Guðmundsson ehf. útgefið leyfi til rekstur gististaðarins Hótel Adam að Skólavörðustíg 42 þann 11. nóvember 2013. Umrætt rekstrarleyfi rann út 11. nóvember 2017.

Í svörum starfsmanns embættisins kemur fram að lögreglustjóra beri án fyrirvara eða aðvörunar að stöðva rekstrarleyfisskylda starfsemi sem fer fram án tiltekins leyfis.

Hótel Adam komst í sviðsljósið fyrir rúmum tveimur árum þegar gestir vöktu athygli á því að varað væri við því að drekka vatn úr krana en hægt væri að kaupa vatnsflöskur merktar hótelinu á 400 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×