Lífið

Hundrað þúsund vilja að Netflix hætti við sýningu á fitusmánunarþætti

Sylvía Hall skrifar
Debbie Ryan fer með aðalhlutverk í þáttunum, en hún klæðist fitubúningi í fyrri hluta myndarinnar.
Debbie Ryan fer með aðalhlutverk í þáttunum, en hún klæðist fitubúningi í fyrri hluta myndarinnar. Vísir/skjáskot
Yfir hundrað þúsund hafa skrifað undir áskorun þar sem biðlað er til Netflix að hætta við sýningu á þáttunum Insatiable, en þættirnir eru sagðir ýta undir fitusmánun.

Sjá einnig:Netflix sakað um fitusmánun í nýjum þáttum

Þættirnir fjalla um unglingsstúlku í yfirþyngd sem hættir að verða fyrir einelti þegar hún léttist töluvert eftir líkamsárás sem olli því að víra þurfti kjálka hennar. Þættirnir eru sagðir ýta undir þá hugmynd að fegurð fari eftir líkamsbyggingu og geti haft slæm áhrif á líkamsvirðingu fólks.

Í undirskriftasöfnunni  segir að þessi söguþráður sé löngu úreltur og gefi það í skyn að stúlkur verði að vera grannar til þess að öðlast vinsældir, vini og vera eftirsóknarverðar.

„Skaðsemi þáttanna nær langt út fyrir þessa þætti. Þetta er ekki einangrað tilvik heldur hluti af mun stærra vandamáli sem allar konur hafa horfst í augu við á ævi sinni.“

Þá er einnig sagt að þættirnir ýti bæði undir skaðlega megrunarmenningu og hlutgervingu á líkömum kvenna og því verði að stöðva sýningu þáttanna. Það sé fjárhagslegt tap fyrir Netflix að hætta við þættina, en sá skaði sem þættirnir muni valda ungum stúlkum sé mun meiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×