Erlent

Birtu leynilega upptöku af fundi Trump og Cohen

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michael Cohen hljóðritaði fundi sína með Donald Trump.
Michael Cohen hljóðritaði fundi sína með Donald Trump. VÍSIR/AFP
CNN birti í gærkvöldi eina af hinum svokölluðu Cohen-upptökum. Um er að ræða upptökur sem þáverandi lögmaður Bandaríkjaforseta, Michael Cohen, gerði meðan hann starfaði fyrir Donald Trump. Í upptökunni sem opinberuð var í gær má heyra Trump og Cohen ræða um að kaupa réttinn að frásögn Playboy-fyrirsætunnar Karen McDougal. Hún heldur því fram að hún og Trump hafi átt í sambandi fyrir um áratug.

Hljóðbrotið má heyra hér að neðan.

Núverandi lögmaður Cohen lét CNN upptökuna í té enda segir hann upptökuna sanna að skjólstæðingur sinn hafi ekkert sér til saka unnið. Cohen hafi viljað ganga frá greiðslunni eftir löglegum leiðum á meðan Trump krafðist þess að greiðslan yrði innt af hendi með reiðufé. Samtalið átti sér stað í september árið 2016, um tveimur mánuðum fyrir forsetakosningarnar.

Sjá einnig: Segir það „mögulega ólöglegt“ að taka upp skjólstæðing sinn

Að endingu var það tímaritið National Enquirer sem keypti réttinn að frásögn McDougal fyrir 150 þúsund dali. Tímaritið keypti réttinn til þess eins að birta ekki frásögnina - aðferð sem reglulega er notuð til að þagga niður í óþægilegum málum. Stjórnandi móðurfyrirtækis tímaritsins er David Pecker, náinn vinur og bandamaður Bandaríkjaforseta.

Fyrst var greint frá tilvist Cohen-upptakanna í liðinni viku. Lögmaðurinn var einn nánasti samstarfsmaður Trump en sætir nú lögreglurannsókn vegna grunsamlegra fjármálagjörninga. Talið er að Cohen hafi lofað lögreglunni samstarfsvilja sínum með það fyrir augum að hljóta vægari refsingu. Samstarfsvilji Cohen myndi koma Trump sér illa, í ljósi náins sambands þeirra í gegnum árin.

Upptökuna sem birtist á CNN má nálgast hér að neðan. Á henni má heyra brot úr samtali Trump og Cohen. Upptakan er þó nokkuð slitrótt og því erfitt að heyra fullkomlega hvert samhengi samtalsins er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×