Erlent

Krikketstjarnan Imran Khan líklega forsætisráðherra Pakistans

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Khan ávarpar þjóðina.
Khan ávarpar þjóðina. Vísir/EPA
Krikketstjarnan fyrrverandi, Imran Khan, hefur lýst yfir sigri í kosningum í Pakistan og er líklegur til að verða næsti forsætisráðherra landsins.

Gangi það eftir yrði það aðeins í annað sinn í rúmlega sjötíu ára sögu Pakistans sem stjórnarskipti verða með friðsömum og lýðræðislegum hætti.

Búið er að telja um helming atkvæða en kosið var til þings og héraðsstjórna á sama tíma. Flokkur Khans, PTI, virðist ætla að ná um 120 af 272 sætum á þingi og er því langstærsti flokkurinn. Það gæti vel dugað til að mynda samsteypustjórn.

Þá er flokkurinn með meirihluta í Punjab og fleiri lykilhéröðum.

Aðrir flokkar hafna hins vegar úrslitunum enn sem komið er og saka Khan og félaga um kosningasvindl. PTI flokkurinn er talinn njóta stuðnings yfirmanna hersins sem hafa oftar en ekki haldið um stjórnartaumana í Pakistan.

Khan reyndi að róa almenning í sjónvarpsávarpi og sagðist ætla að sameina þjóðina. Hann myndi ekki búa í höll forsætisráðherrans heldur velja sér hóflegri samastað.

Imran Khan er langfremsti íþróttamaður í sögu Pakistans og lengi einn dáðasti sonur þjóðarinnar. Hann var fyrirliði krikketlandsliðsins í áratug. Þetta er því svipað og ef Eiður Smári Guðjohnsen yrði forsætisráðherra Íslands eða David Beckham tæki við af Theresu May í Bretlandi.

Khan, sem er menntaður í Oxford, hóf afskipti af stjórnmálum eftir að krikketferlinum lauk á tíunda áratug síðustu aldar. Það gekk ekki sérlega vel í fyrstu en hann fann sér á endanum bandamenn og breytti afstöðu sinni til nokkurra hitamála.

Hann hefur fyrir vikið verið sakaður um lýðskrum, sérstaklega í garð fátækra og trúaðra. Segist hann berjast gegn elítu landsins og vera maður fólksins en ekki kerfisins.


Tengdar fréttir

Kosningabaráttan kostað tugi lífið

Pakistan Að minnsta kosti 70 fórust í hryðjuverkaárás á kosningafund Lýðflokks Balúkistan (BAP) í bænum Dringarh í Balúkistan í Pakistan í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×