Erlent

Tíundi nashyrningurinn dauður í kjölfar flutninga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ellefu svartir nashyrningar voru í fyrra fluttir í þjóðgarð í Kenía en aðeins einn þeirra hefur lifað flutningana af.
Ellefu svartir nashyrningar voru í fyrra fluttir í þjóðgarð í Kenía en aðeins einn þeirra hefur lifað flutningana af. Vísir/getty
Nú hafa tíu svartir nashyrningar, af þeim ellefu sem færðir voru í þjóðgarðinn Tsavo East í fyrra, drepist eftir flutningana. Sá tíundi í röðinni drapst á dögunum.

Nashyrningastofninn (Diceros Bicornis) er í mikilli hættu og líkur eru á að þeir verði útdauðir ef ekkert verður að gert. Talið er að í heiminum séu færri en 5.500 svartir nashyrningar. Allir eru í Afríku og 750 þeirra í Kenía að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Flutningarnir, sem stjórnvöld í Kenía höfðu frumkvæði að, höfðu það að markmiði að nashyrningarnir fótuðu sig betur og fjölguðu sér í nýjum heimkynnum.

Krufningin leiddi í ljós að vatnið í þjóðgarðinum reyndist allt of salt fyrir nashyrningana. Nokkrir af hinum tíu nashyrningum sem færðir voru um set drápust ýmist úr vökvatapi, öndunarfærasýkingu eða magasári.

Yfirvöld í Kenía standa frammi fyrir því mikla verkefni að bjarga nashyrningastofninum Diceros Bicornis.vísir/getty
Najib Balala, ráðherra ferðamála, gerði grein fyrir þessu á blaðamannafundi. Hann var verulega gagnrýninn á embættismenn í þessu samhengi og sakaði starfsmenn um að hafa viðhaft vanrækslu og þá hafi þeim láðst að samstilla sig.

Upphaflega stóð til að færa fjórtán svarta nashyrninga í þjóðgarðinn en yfirvöld hættu við að flytja þrjá eftir að fyrstu nashyrningarnir tóku að drepast á nýjum stað.

Að því er fram kemur á Vísindavefnum er svarti nashyrningurinn talsvert minni en sá hvíti. Þar kemur einnig fram að rannsóknir hafi sýnt að nashyrningar sem búi á ófriðarsvæðum og svæðum þar sem veiðiþjófar eru sífellt á ferð eru mun árásargjarnari en á svæðum þar sem þeir fá að vera í friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×