Erlent

Segir Trump hafa vitað af Rússafundinum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michael Cohen var náinn samstarfsmaður Donald Trump til margra ára. Hann virðist ætla að verða forsetanum óþægur ljár í þúfu.
Michael Cohen var náinn samstarfsmaður Donald Trump til margra ára. Hann virðist ætla að verða forsetanum óþægur ljár í þúfu. Vísir/Getty
Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að Trump hafi vitað fyrirfram af fundi ráðgjafa sinna með rússneskri sendinefnd sem fór fram í Trump-turni í júní árið 2016.

Tilgangur fundarins var að aðstoða Trump í kosningabaráttu hans. Rússneskur lögfræðingur sagðist búa yfir óþægilegum upplýsingum um mótframbjóðanda Trump, Hillary Clinton, sem hann vildi láta kosningaliði Trump í té.

Meðal þeirra sem sóttu fundinn voru sonur Trump, Donald Trump yngri, tengdasonur Trump og kosningastjóri hans.

Sonurinn birti fyrr á þessu ári tölvupóstssamskipti sem hann átti vegna fundarins þar sem ofangreint kom fram. Hann hefur að sama skapi haldið því fram að ekkert bitastætt hafi komið út úr fundinum og því hafi honum verið slitið skömmu eftir að hann hófst.

Engin upptaka

Hins vegar hafa Trump-liðar ætíð neitað því að forsetinn hafi vitað af fundinum þrátt fyrir að hann hafi farið fram aðeins örfáum hæðum fyrir neðan íbúð Trump í turninum. Þá hefur verið sýnt fram á að eftir fundinn hafi Trump yngri hringt símtal í leyninúmer. Margir hafa talið að faðir hans hafi verið á hinni línunni, en það hefur ekki fengist sannreynt.

Samkvæmt miðlum vestanhafs er Cohen tilbúinn að bera vitni um vitneskju Trump fyrir nefnd sem rannsakar afskipti Rússa af kosningunum. Hann er þó ekki talinn hafa neina hljóðupptökur sem rennt geta stoðum undir fullyrðinguna. Greint var frá því í liðinni viku að Cohen hafi tekið upp fundi sína með Trump.

Lögmaðurinn var einn nánasti samstarfsmaður Trump en sætir nú lögreglurannsókn vegna grunsamlegra fjármálagjörninga. Talið er að Cohen hafi lofað lögreglunni samstarfsvilja sínum með það fyrir augum að hljóta vægari refsingu. Samstarfsvilji Cohen myndi koma Trump sér illa, í ljósi náins sambands þeirra í gegnum árin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×