Enski boltinn

Dyche áhyggjufullur yfir meiðslum Pope

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pope þurfti að yfirgefa völlinn í gær vegna meiðsla
Pope þurfti að yfirgefa völlinn í gær vegna meiðsla Vísir/Getty
Nick Pope, markvörður Burnley, gæti verið lengi frá eftir alvarleg axlarmeiðsli sem hann hlaut í leik Burnley og Aberdeen í forkeppni Evrópudeildarinnar í gær.

Pope var einn þriggja markvarða Englands á HM í Rússlandi en kom ekkert við sögu þar. Hann spilaði sinn fyrsta og eina landsleik í vináttuleik Englands og Kosta Ríka fyrir mótið.

Pope átti mjög gott tímabil með Burnley síðasta vetur en nýtt tímabil byrjar á versta mögulega máta fyrir hinn 26 ára Pope. Hann þurfti að fara á sjúkrahús eftir samstuð við Sam Cosgrove í leiknum í Skotlandi í gær.

„Þetta lítur út fyrir að vera frekar alvarlegt eins og er,“ sagði Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, eftir leikinn.

„Hann fer til þess að stoppa boltann og ég held strákurinn hafi farið í handleggin á honum og ýtt honum til baka, en við þurfum bara að bíða og sjá.“

Tom Heaton byrjaði tímabilið fyrir Burnley í fyrra en meiddist snemma veturs og Pope tók við. Heaton er að glíma við meiðsli á kálfa svo Dyche er aðeins með tvo markverði heila. Fyrrum Manchester United maðurinn Anders Lindegaard er líklegur til þess að standa á milli stanganna í fjarveru Pope og Heaton.

Seinni leikur Burnley og Aberdeen fer fram á Turf Moor á fimmtudaginn í næstu viku. Leiknum í gær lauk með 1-1 jafntefli. Burnley hefur leik í ensku úrvalsdeildinni sunnudaginn 12. ágúst í Southampton.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×