Innlent

Trump þvertekur fyrir að hafa vitað af Rússafundinum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Trump segist ekki hafa haft hugmynd um fundinn með Rússunum.
Trump segist ekki hafa haft hugmynd um fundinn með Rússunum. vísir/getty
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, neitar því að hafa vitað fyrirfram af fundi ráðgjafa sinna með rússneskri sendinefnd sem fór fram í Trump-turni í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.

Tilgangur fundarins var aðstoða Trump í kosningabaráttunni en rússneskur lögfræðingur sagðist búa yfir óþægilegum upplýsingum um mótframbjóðandann, Hillary Clinton, sem hann vildi láta kosningaliði Trump í té.

Eins og greint var frá á Vísi í morgun hefur Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump, sagt að forsetinn hafi vitað fyrirfram af fundinum.

Trump fór síðan á Twitter í dag og þvertók fyrir að hafa vitað af fundinum. Þá sagði hann að honum virtist sem Cohen væri að reyna að búa til sögur til þess að koma sér út úr alls ótengdu vandamáli.

Spurði Trump síðan, innan sviga, hvort það tengdist kannski leigubílum en fjölmiðlar ytra hafa fjallað nokkuð um fjárfestingar Cohen á leigubílamarkaðnum í New York og hversu mikið hann hefur tapað á þeim vegna tilkomu fyrirtækja á borð við Uber.

Á meðal þeirra sem sóttu Rússafundinn fræga voru sonur Trump, Donald Trump yngri, tengdasonur Trump og svo kosningastjórinn hans. Allir hafa þeir, auk Trump, ítrekað sagt að engar óþægilegar upplýsingar um Clinton hafi komið fram á fundinum.

Rudy Giuliani, núverandi lögmaður Trump, lét Cohen líka heyra það vegna fréttanna um að Trump hafi vitað af Rússafundinum.

„Hann hefur verið að ljúga alla vikuna, hann hefur verið að ljúga í mörg ár,“ sagði Giuliani.

Það að hann hafi sagt að Cohen hafi verið að ljúga í mörg ár gæti komið sér illa fyrir Trump þar sem Cohen vann fyrir hann í nokkur ár.


Tengdar fréttir

Segir Trump hafa vitað af Rússafundinum

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að Trump hafi vitað fyrirfram af fundi ráðgjafa sinna með rússneskri sendinefnd sem fór fram í Trump-turni í júní árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×