Innlent

Grunur um eld í vél American Airlines sem flogið var til Keflavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Boeing 777 flugvél hjá American Airlines.
Boeing 777 flugvél hjá American Airlines.
Lenda þurfti flugvél American Airlines á leið frá Bandaríkjunum til Parísar á Keflavíkurflugvelli snemma í morgun eftir að ósk barst þess efnis til flugmálastjórnar. Samkvæmt heimildum Vísis var talið að hugsanlega væri eldur í flugvélinni og var Keflavík næsti flugvöllur. Ekki sást þó neinn reykur og gekk vel að lenda vélinni sem nú er í Keflavík.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir við Vísi að vélinni hafi verið lent í morgun eftir að upp kom tæknileg bilun í vélinni, þess valdandi að lenda þurfti vélinni hér. Í henni hafi verið rúmlega 200 farþegar sem fluttir hafi verið úr flugvélinni og í flugstöðvarbygginguna þar sem þeir bíða frekari tíðinda frá American Airlines. Guðjón vísar annars á American Airlines varðandi frekari upplýsingar.

Um er að ræða Boeing 777 vél American Airlines. Samkvæmt heimildum Vísis er ekkert sem bendir til þess að eldur hafi komið upp í vélinni. Líklegra er talið að um bilaðan skynjara sé að ræða.

Viðbúnaðarstig var rautt í Keflavík í morgun. Það segir þó ekki til um alvarleika þess sem gerist heldur hvernig viðbúnað þurfi að hafa í Keflavík til dæmis með tilliti til farþegafjölda í flugvél.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×