Erlent

Brennuvargar sem voru tilefni blóðugs umsáturs náðaðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Hópur vopnaðra manna tók yfir Malheur-verndarsvæðið í Oregon, meðal annars til að mótmæla fangelsun Hammond-feðganna í byrjun árs 2016.
Hópur vopnaðra manna tók yfir Malheur-verndarsvæðið í Oregon, meðal annars til að mótmæla fangelsun Hammond-feðganna í byrjun árs 2016. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti náðaði í dag feðga sem voru fangelsaðir fyrir að kveikja í alríkislandi. Mál búgarðeigendanna varð tilefni umsáturs í þjóðgarði í Oregon-ríki árið 2016 sem endaði með dauða eins umsátursmannana.

Dwight Hammond yngri og Steven Hammond voru dæmdir fyrir að hafa kveikt sinueld sem barst í alríkisland í Oregon. Eldana kveiktu þeir árið 2001 og 2016 en þeir voru loks ákærðri árið 2012. Þeir höfðu þá lengi deilt við alríkisstjórnina um yfirráð yfir landi.

Þrátt fyrir að lágmarksrefsing fyrir brot þeirra væri fimm ára fangelsi dæmdi dómari föðurinn upphaflega í þriggja mánaða fangelsi en soninn í árs fangelsi.

Saksóknarar áfrýjuðu dómnum og þeir voru dæmdir í fimm ára fangelsi fyrir áfrýjunardómstóli árið 2016. Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði í dag að saksóknarar í tíð Baracks Obama fyrrverandi forseta hefðu gengið of hart fram gegn feðgunum og að dómurinn yfir þeim hefði verið „óréttlátur“. Eldurinn sem þeir kveiktu hafi aðeins „lekið“ inn á lítinn hluta beitarlands.

Feðgarnir hafa þegar afplánað þrjú og fjögur ár af fangelsisdómum sínum.

Umsátur sem endaði með ofbeldi

Dómarnir yfir Hammond-feðgunum urðu hópi vopnaðra búgarðseigenda tilefni til þess að sölsa undir sig Malheur-verndarsvæðið í Oregon snemma árs 2016. Hópurinn hélt svæðinu í herkví í 41 dag en með því vildi hann einnig mótmæla eignarhaldi alríkisstjórnarinnar á jarðnæði í vesturhluta Bandaríkjanna.

Umsátrið endaði með því að forsprakkar hópsins voru handteknir eftir stuttan skotbardaga. Einn umsátursmannanna féll fyrir byssuskoti alríkislögreglumanns.

Helstu leiðtogar vopnaða hópsins voru sýknaðir af ákærum vegna umsátursins fyrir tveimur árum, að sögn Washington Post.


Tengdar fréttir

Senda út neyðarkall eftir vistum

Svo virðist vera sem vopnuðu mennirnir í Oregon, sem tóku skrifstofur dýraathvarfs á sitt vald, hafi ekki skipulagt valdarán sitt nógu vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×