Fótbolti

Er Raiola að bjóða félögum að kaupa Pogba?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Paul Pogba hefur staðið sig vel á HM í Rússlandi
Paul Pogba hefur staðið sig vel á HM í Rússlandi Vísir/Getty
Umboðsmaðurinn Mino Raiola á að hafa boðið Barcelona að kaupa franska miðjumanninn Paul Pogba frá Manchester United. Spænski miðillinn Mundo Deportivo greindi frá þessu í dag.

Raiola er sagður hafa gert forráðamönnum Barcelona grein fyrir því að Pogba sé óhamingjusamur í Manchester og vilji komast frá félaginu. Pogba er samningsbundinn United til 2021.

Í vetur var mikið rætt um Pogba og möguleg vistaskipti hans þar sem talið var að hann ætti í deilum við knattspyrnustjórann Manchester United.

Það er þó ekki lengra síðan en í mars að Raiola gaf sjálfur út að allar sögusagnir um ósætti á milli Pogba og Mourinho væru ósannar. Í apríl bárust hins vegar fréttir af því að Raiola hafi boðið Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, að kaupa Pogba í janúar.

Hvort einhver fótur sé fyrir þessum sögusögnum er hins vegar óljóst, Pogba er sjálfur upptekinn um þessar mundir, hann er á HM í Rússlandi með franska landsliðinu sem spilar til úrslita á mótinu á morgun. Þá er Raiola nokkuð umdeildur í fótboltaheiminum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×