Enski boltinn

Guardiola boðið að kaupa Pogba í janúar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Er Guardiola að hrista upp í herbúðum United?
Er Guardiola að hrista upp í herbúðum United? vísir/afp
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að honum hafi verið boðið að kaupa Paul Pogba og Henrikh Mkhitaryan frá Manchester United í janúar.

Guardiola var á blaðamannafundi fyrir leik Manchesterliðanna í ensku úrvalsdeildinni á morgun þegar hann sagði Mino Raiola, umboðsmanninn umdeilda sem sér um mál beggja leikmanna, hafi haft samband við sig í janúar og látið vita af því að leikmennirnir tveir væru falir.

BBC leitaði eftir viðbrögðum Raiola og hann neitaði því að hafa haft samband við Guardiola, en ekki að hafa látið City vita af möguleikanum á að kaupa leikmennina. Heimildarmaður innan United segir að Pogba hafi ekki verið til sölu í janúar og hvorugur hefði mátt fara til City.

Mkhitaryan var seldur til Arsenal í janúarglugganum.

Guardiola vildi ekki gefa neitt út um það hvort hann hafi haft áhuga á því að kaupa Pogba en lýsti honum sem „frábærum leikmanni.“

Pogba virðist ekki hafa haft neina vitneskju um þetta mál, en hann setti mynd á Twitter síðu sína þegar fréttir bárust af ummælum Guardiola þar sem hann segir einfaldlega: „Hvað sagðir þú?“





Það hefur farið mikinn í umræðunni á nýju ári að ósætti sé milli Pogba og Jose Mourinho, stjóra United. Fréttir hafa farið fram og til baka með það hvort í raun sé eitthvað ósætti, en Pogba hefur þurft að sitja þó nokkuð á varamannabekknum það sem af er ári.

Leikur Manchester City og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun, laugardag, klukkan 16:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×