Erlent

Föst í bifreið sinni í viku eftir veltu

Andri Eysteinsson skrifar
Bíll konunnar hafði endað í fjöruborðinu og var hálfvegis í kafi þegar göngumenn gengu fram á hann.
Bíll konunnar hafði endað í fjöruborðinu og var hálfvegis í kafi þegar göngumenn gengu fram á hann. Vísir/EPA
Bandarískri konu á þrítugsaldri sem hafði verið saknað var bjargað heilli viku eftir að hún velti bíl sínum niður af kletti á kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, BBC greinir frá.

Hin 23 ára gamla Angela Hernandez var á leið frá heimili sínu í Portland í Oregon til Los Angeles í Kalíforníu til að heimsækja systur sína.

Hernandez var á leið um Big Sur svæðið milli San Francisco og Los Angeles þegar hún neyddist til að sveigja fram hjá dýri á veginum. Við það missti hún stjórn á bílnum sem valt og féll niður 60 metra háan klett og niður að sjó.

Talsmaður Lögreglunnar í Monterey sýslu, John Thornburg, segir að Angela Hernandez sé heppin að vera á lífi. „Það er venjulega annaðhvort fallið eða hafið sem ná þeim, hún var heppin að lifa bæði af“ sagði Thornburg.

Hernandez fannst á föstudaginn þegar að göngumenn sáu bíl hennar hálfvegis í hafinu. Hernandez var með meðvitund en virðist hafa fengið heilahristing við fallið. Hernandez segist hafa komist af með því að drekka vatn sem lak úr vatnskassa bifreiðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×