Innlent

Hitamet sumarsins slegið í Reykjavík: 14,2 gráður

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ófáar fréttir hafa verið sagðar af áhyggjum borgarbúa yfir sólarleysi, en íbúar á Norðausturlandinu hafa verið heldur heppnari. Í morgun var slegið hitamet í Reykjavík þar sem mældust heilar 14,2 gráður. Hæstur hafði hitinn mælst 13,4 stig í borginni.

Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að frá og með morgundeginum muni birta til í flestum landshlutum. Þó sé ekki tímabært að henda regnhlífinni þar sem búist er við rigningu á öllu landinu á föstudag.

„Í næstu viku er spáð hæglætisveðri á öllu landinu. Þá er útlit fyrir að það verði væta til að byrja með á Norðausturlandinu á mánudag. Svo verður hægviðri og bjart með köflum. Það ætti að sjást til sólar í flestum landshlutum frá þriðjudegi og fram á fimmtudag. Svo er útlit fyrir rigningu á öllu landinu á föstudag,“ segir Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Þá eru veðurfregnirnar sérstaklega ánægjulegar fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu að því leyti að minna verður um lægðargang.

„Útlit er fyrir að það verði bjart og fallegt veður á höfuðborgarsvæðinu frá og með morgundeginum og fram eftir viku. Þá gæti orðið hlýtt í innsveitum, sérstaklega þar sem er skjól,“ segir Elín Björk.

Þó segir hún ekki útlit fyrir miklar breytingar, en ólíklegt er að ný hitamet verði slegin á höfuðborgarsvæðinu. Þó mun sjást til sólar sem gleðja muni eflaust ófáa borgarbúa.

„Það er ekki útlit fyrir stórar breytingar. Við sjáum ekki fram á mjög hlýtt loft yfir landinu. En það er vissulega minna um lægðargang í spánum núna næstu vikur en verið hefur,“ segir Elín Björk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×