Erlent

Ummæli Trump „algjörlega gagnstæð áætluninni“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump var nokkuð ánægður með HM-boltann sem Vladimir Pútín afhenti honum í gær.
Donald Trump var nokkuð ánægður með HM-boltann sem Vladimir Pútín afhenti honum í gær. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa hunsað tilmæli og ráðleggingar ráðgjafa og starfsmanna hans í aðdraganda fundar hans með Vladimir Pútín, forseta Rússlands í gær. Var honum ítrekað ráðlagt að gefa ekkert eftir í viðræðunum við forseta Rússlands.

Þetta kemur fram í frétt Washington Post sem byggir á samræðum við embættismenn sem komu að því að undirbúa Trump undir fundinn. Þar kemur fram að í aðdraganda fundarins hafi starfsmenn Hvíta hússins látið Trump í té um 100 blaðsíður af undirbúningsefni til þess að undirbúa Trump undir fundinn.

Snerist þetta undirbúningsefni einkum um að undirbúa Trump undir það að gefa ekkert eftir í viðræðunum við Pútín. Eftir því sem Post hefur eftir heimildarmanni sem sagður er þekkja til hvað átti sér stað á fundi forsetanna hunsaði Trump blaðsíðurnar 100 nánast algjörlega.

Sjá einnig:Ein „skammarlegasta framkoma“ forseta Bandaríkjanna í manna minnum

Frammistaða Trump á blaðamannafundinum eftir viðræður hans og Pútín hafa einnig verið harðlega gagnrýndar í Bandaríkjunum, úr öllum áttum, líkt og Vísir fjallaði um í gær. Segir heimildarmaður Post að ummæli Trump þar hafi verið „algjörlega gagnstæð áætluninni“.

Þá hefur blaðið einnig eftir heimildarmönnum sínum að „allir í kringum Trump“ hafi eindregið hvatt hann til þess að gefa ekkert eftir og að sérstök áhersla hafi verið lögð á að ræða um innlimun Rússa á Krímskaganum sem og meint afskipti Rússa af kosningum í Bandaríkjunum. Trump hafi hins vegar ákveðið á síðustu stundu að feta eigin leið á fundinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×