Innlent

Ferðamálastofa þurfti að virkja tryggingar til að koma Íslendingum heim frá Spáni

Birgir Olgeirsson skrifar
Austfirðingarnir voru á Alicante í apríl síðastliðnum.
Austfirðingarnir voru á Alicante í apríl síðastliðnum. Vísir/Getty
Ferðamálastofa þurfti að virkja tryggingar sínar til að koma farþegum á vegum Ferðaskrifstofu Austurlands (FA Travel) heim frá Alicante á Spáni í lok apríl síðastliðins eftir að skrifstofan fór í rekstrarstöðvun. 

Greint er frá þessu á vef Austurfréttar en þar er tekið fram að tæp tuttugu ár eru síðan grípa þurfti til slíkra aðgerða.

Austurfrétt sendi Ferðamálastofu fyrirspurn um málið en í svarinu kemur fram að Ferðamálastofa felldi ferðaskrifstofuleyfi FA Travel niður í lok apríl eftir að fyrirtækið fór í rekstrarstöðvun.

Fyrirtækið hafði staðið fyrir ferð til Alicante á Spáni en Austurfrétt greinir frá því að í þeirri ferð hafi fyrst og fremst verið Austfirðingar enda var flogið beint frá Egilsstöðum.

Í frétt Austurfréttar er vísað í lög um ferðamál en þar kemur fram að ferðaskrifstofum sé skylt að vera með tryggingar fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem enn er óvarin, eða heimflutnings hans komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar. 

Austurfrétt segir að síðast þurfti að virkja þessa tryggingu þegar Samvinnuferðir-Landsýn fóru í gjaldþrot síðla árs 2001. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×