Fótbolti

Real Madrid neitar sögusögnum um tilboð í Neymar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Paulinho og Neymar fagna marki hins fyrrnefnda á HM í Rússlandi
Paulinho og Neymar fagna marki hins fyrrnefnda á HM í Rússlandi Vísir/Getty
Í kvöld bárust fréttir af því að Real Madrid hafi gert PSG kauptilboð í brasilísku stórstjörnuna Neymar. Spænska félagið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fréttirnar eru sagðar ósannar.

Spænska sjónvarpsstöðin TVE sagði Real hafa boðið 310 milljónir evra í Neymar en ekki fengið svar frá franska félaginu. Neymar er dýrasti leikmaður sögunnar, kostaði PSG 220 milljónir evra þegar hann fór til þeirra frá Barcelona, svo þetta tilboð hefði gert hann lang dýrasta leikmann sögunnar.

„Í tilefni frétta af tilboði Real Madrid í Neymar vill félagið segja að þessar upplýsingar eru ekki sannar. Real Madrid hefur ekki gert PSG neitt kauptilboð í neinn leikmann,“ segir í tilkynningu Real.

„Real Madrid er hissa á því að spænska ríkissjónvarpið hafi kosið að segja frá fölskum fréttum án þess að leitast eftir viðbrögðum frá félaginu þar sem þetta hefði getað verið leiðrétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×