Innlent

Íbúafundur í Lyngbrekku vegna hamfaranna í Hítardal

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísindamenn frá Veðurstofunni og Hafrannsóknastofnun voru við mælingar í Hítará um helgina.
Vísindamenn frá Veðurstofunni og Hafrannsóknastofnun voru við mælingar í Hítará um helgina. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Borgarbyggð boðar til íbúafundar í félagsheimilinu Lyngbrekku klukkan átta í kvöld vegna náttúruhamfaranna í Hítardal. Fundurinn er meðal annars ætlaður til upplýsingar fyrir þá  íbúa sveitarfélagsins sem tengjast hamfarasvæðinu á einhvern hátt. Til fundarins hafa verið boðaðir fulltrúar lögreglunnar og almannavarna, Landsbjargar, Veðurstofunnar, Landgræðslunnar, Veiðimálastofnunar, Bændasamtakanna, Búnaðarsamtaka Vesturlands og Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Stór skriða féll úr Fagraskógarfjalli og stíflaði Hítará í Hítardal á Mýrum snemma síðastliðinn laugardagsmorgun en við það myndaðist stórt lón í dalnum fyrir ofan stífluna.

Leiddar hafa verið líkur að því að vætutíðin undanfarið hafi komið skriðunni af stað. Þannig sagði Finnbogi Rögnvaldsson, jarðfræðingur, í kvöldfréttum Stöðvar 2 að rigningarvatn hefði safnast upp í gömlum jarðskjálftasprungum. Þrýstingur af völdum vatnsins hefði valdið því að stór spilda féll úr fjallinu í gærmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×