Erlent

Slökkva á nettengingu landsins á prófatímabilinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svindl á lokaprófum eru sögð mikið vandamál í Alsír.
Svindl á lokaprófum eru sögð mikið vandamál í Alsír. Vísir/getty
Alsírsk stjórnvöld lokuðu á nettengingu landsins í gær vegna lokaprófa í framhaldsskólum landsins. Lokunin verður endurtekin reglulega á næstu dögum en vonast er til að netleysið muni koma í veg fyrir svindl framhaldsskólanema á lokaprófunum.

Alls var lokað fyrir netið í tvær klukkustundir í gær, rétt á meðan tvö lokapróf stóðu yfir, og náði netleysið jafnt til hefðbundinna nettenginga sem og farsímanetkerfis landsins.

Öll nettengd raftæki voru tekin af þeim 700 þúsund nemendum sem mættu á einhvern hinna 2000 prófstaða sem settir voru upp í Alsír í gær. Menntamálaráðherra landsins segir í samtali við Guardian að til að tryggja að ekkert raftæki kæmist inn á prófstað hafi nemendum verið gert að labba í gegnum málmleitartæki, ekki ósvipuð þeim og finnast á flugvöllum.

Til að koma í veg fyrir að spurningarnar á prófunum lækju til nemenda var komið upp öryggismyndavélum þar sem prófin voru prentuð. Þar að auki var komið fyrir búnaði sem lokaði á allt farsíma- og netsamband í prentsmiðjunni.

Svindl á lokaprófum er sagt vera víðtækt vandamál í Alsír. Í lokaprófunum árið 2016 fóru spurningar úr prófunum á mikið flug á samfélagsmiðlum áður en prófdagurinn rann upp. Alsírsk stjórnvöld brugðu því á það ráð í fyrra að loka fyrir samfélagsmiðlanotkun í landinu meðan á prófunum stóð en það dugði víst ekki til. Því hafi niðurstaðan verið sú að einfaldast væri hreinlega að loka alfarið fyrir nettengingu landsins meðan á prófunum stendur.

Alsírska prófatímabilinu lýkur á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×