Innlent

Segir ólíklegt að vímuefnanotkun eigi sér stað inni á svæði hátíðarinnar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Secret Solstice-tónlistarhátíðin stendur nú yfir í Laugardalnum.
Secret Solstice-tónlistarhátíðin stendur nú yfir í Laugardalnum. Vísir/Jóhanna
Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af rúmlega þrjátíu einstaklingum vegna vörslu fíkniefna í Laugardalnum í gærkvöldi og í nótt. Fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar Secret Solstice segir að fréttir um vímuefnanotkun inni á svæðinu standist ekki.

Í gær greindi fréttastofa Stöðvar 2 frá því að foreldrar hefðu áhyggjur af vímuefnanotkun á hátíðinni Secret Solstice, en að sögn foreldris urðu þeir varir við talsverða kannabis neyslu og unglingadrykkju á svæðinu. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að í gærkvöldi og nótt hafi lögregla haft afskipti af rúmlega þrjátíu einstaklingum vegna vörslu fíkniefna í Laugardalnum þar sem tónlistarhátíðin Secret Solstice fer fram.

„Mér finnst líklegt að þetta hafi verið fólk sem eru hátíðargestir. Ólíklegt finnst mér að þeir hafi verið að neyta fíkniefna á svæðinu þar sem gæslan er mjög öflug og vímuefnaneysla ekki liðin á svæðinu,“ segir Björn Teitsson, fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar Secret Solstice.

Hann gefur lítið fyrir um áfengisneyslu inni á svæðinu.

„Fréttir af því að fólk undir lögaldri sé að kaupa áfengi á svæðinu standast held ég illa en að því sögðu þá getum við auðvitað ekki fylgst með því sem gerist fyrir utan hátíðarsvæðið. Mér þótti leiðinlegt að heyra þetta úr dagbók lögreglu í morgun en ég held að það sé bara örfáir einstaklingar af mjög stórum hópi gesta sem er að skemmta sér mjög vel og fallega,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×