Innlent

Spáir stormi í nótt og fram á morgundaginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Sérstaklega er varað við því að tjöld, garðhúsgögn og trampólín gætu fokið í hvassviðrinu í nótt og á morgun.
Sérstaklega er varað við því að tjöld, garðhúsgögn og trampólín gætu fokið í hvassviðrinu í nótt og á morgun. Vísir/Stefán
Veðurstofan varar við hvassviðri eða stormi um landið austanvert í nótt og fram yfir hádegi á morgun. Snarpar vindhviður geta orðið við fjöll, víða yfir 30 metrar á sekúndu og er fólk beðið um að huga að lausum munum.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar kemur fram að um litla lægð sé að ræða sem fari allhratt yfir landið. Veðurspáin geti því breyst hratt og brýnir Veðurstofan fyrir fólki að fylgjast vel með spám.

Gul veðurviðvörun tekur gildi í nótt á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Suðausturlandi og Miðhálendinu og stendur fram á miðjan dag á morgun.

Spáð er vestan og suðvestan hvassviðri eða stormi um landið austanvert seint í nótt, en 10-15 m/s um landið vestanvert. Víða skúrir verða skúrir, en yfirleitt þurrt á Austurlandi. Draga á úr vindi fyrir austan eftir hádegi á morgun, 10-15 m/s annað kvöld.

Hiti verður á bilinu 10 til 21 stig í dag, hlýjast í innsveitum norðaustanlands, en hiti 8 til 16 stig á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×