Erlent

Gáfu blaðið út í dag þrátt fyrir skotárásina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hluti af forsíðu dagblaðsins The Capital Gazette í dag, 29. júní 2018.
Hluti af forsíðu dagblaðsins The Capital Gazette í dag, 29. júní 2018. Mynd/The Capital Gazette
Árásarmaður skaut fimm til bana á skrifstofu dagblaðsins The Capital Gazette í borginni Annapolis í Maryland-ríki í Bandaríkjunum í gær. Dagblaðið kom út í morgun, eins og venjulega, þrátt fyrir árásina. Allir hinir fimm látnu voru starfsmenn blaðsins.

The Capital Gazette birti mynd af föstudagsforsíðunni á Twitter-reikningi sínum í morgun. Forsíðufréttin ber fyrirsögnina „5 skotnir til bana hjá The Capital“ og myndum af hinum látnu er raðað fyrir ofan hana ásamt nöfnum: Wendi Winters, Rebecca Smith, John McNamara, Gerald Fischman og Rob Hiaasen. Þau störfuðu öll hjá blaðinu, ýmist sem blaðamenn, ritstjórar eða sinntu öðrum störfum á ritstjórninni.

Chase Cook, blaðamaður The Capital Gazette, hét því stuttu eftir árásina að ritstjórnin gæfi út blað daginn eftir. Tíst Cook þess efnis vakti mikla athygli á Twitter í gær.

Í frétt bandarísku fréttastofunnar CNN er haft eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að byssumaðurinn sé karlmaður að nafni Jarrod Warren Ramos, sem höfðaði meiðyrðamál gegn blaðinu árið 2012. Málið var látið niður falla. Þá er einnig haft eftir lögreglu að ritstjórn blaðsins hafi borist hótanir í gegnum samfélagsmiðla, síðast í gær.

Hinn grunaði notaðist við haglabyssu og reyksprengjur í árásinni. Lögregla kom að honum að loknu voðaverkinu þar sem hann faldi sig undir skrifborði. Maðurinn hefur verið handtekinn.

Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti vottað fórnarlömbum árásarinnar og aðstandendum þeirra samúð sína. Í Twitter-færslu sem hann birti í gær þakkaði hann einnig viðbragðsaðilum á vettvangi. Trump hefur verið harðlega gagnrýninn á fjölmiðla allt frá því að hann bauð sig fyrst fram og hefur ítrekað lýst fjölmiðlum sem óvinum bandarísku þjóðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×