Erlent

Kim mættur til Singapúr

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un á flugvellinum í Singapúr.
Kim Jong-un á flugvellinum í Singapúr. Vísir/AP
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu er mættur til Singapúr þar sem hann mun funda með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á þriðjudaginn. Þetta verður í fyrsta sinn sem leiðtogar ríkjanna hittast. Trump mun lenda í Singapúr seinna í dag en fundur þeirra mun fara fram á fimm stjörnu hóteli á singapúrsku eyjunni Sentosa.

Yfirvöld Bandaríkjanna vonast til þess að fundurinn muni leiða af sér að Norður-Kórea láti kjarnorkuvopn sín af hendi. Trump sagði þó í gær að hann myndi vita á fyrstu mínútu fundarinns hvort það væri mögulegt. Hann sagðist vel tilbúinn til að yfirgefa fundinn ef honum litist ekki á blikuna.

Hann var þó borubrattur í Kanada í gær og sagði að þrátt fyrir að hann væri að fara inn á ókannað svæði væri hann fullur sjálfstrausts.

„Ég trúi því að Kim Jong-un vilji gera eitthvað stórkostlegt fyrir fólkið sitt. Hann hefur tækifæri til þess og fær það tækifæri ekki aftur,“ sagði Trump.

Norður-Kórea, undir stjórn Kim, hefur náð miklum framförum í þróun kjarnorkuvopna og langdrægra eldflauga og nú virðist sem að Kim vilji einbeita sér að efnahagi Norður-Kóreu og þá sérstaklega losna við umfangsmiklar refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir sem beitt hefur verið gegn ríkinu og komið hefur verulega niður á efnahagi Norður-Kóreu.

Á sama tíma og mikil áhersla hefur verið lögð á vopnaþróun hefur fólk Norður-Kóreu setið á hakanum. Vannæring er talin hafa aukist til muna og er áætlað að um 40 prósent íbúa séu vannærð.

Sérfræðingar segja að fundurinn með Trump muni veita Kim ákveðna viðurkenningu sem hvorki faðir hans né afi hafi notið. Markmið hans sé að tryggja sig í sessi heima fyrir. Það vilji hann gera með því að bæta efnahag landsins og er fundurinn með Trump í rauninni bara framhald af herferð Kim sem hófst í byrjun ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×