Erlent

Þúsundir Baska báðu um kosningarétt

Andri Eysteinsson skrifar
Þúsundir baska tengdu saman helstu borgir héraðsins.
Þúsundir baska tengdu saman helstu borgir héraðsins. Vísir/EPA
Þúsundir Baska, héldu í dag út á götur Baskalands, í norðurhluta Spánar, og héldust í hendur. Keðjan sem myndaðist náði yfir um 200 kílómetra um vegi héraðsins, ástæðan fyrir uppákomunni var krafa baska um að fá að halda kosningar um sjálfstæði héraðsins. Reuters greinir frá á vef sínum.

Keðjan var skipulögð af basknesku samtökunum Gure Esku Dago (Í okkar eigin hendur) og náði frá San Sebastian til baskneska þingsins í Vitoria-Gasteiz.

Stjórnarskrá Spánar frá 1978 gerir ráð fyrir því að landið sé ein heild og að héruð landsins geti ekki aðskilist frá heildinni.

Mikið hefur verið fjallað um tilraunir katalónskra yfirvalda til að aðskilja héraðið frá Spáni í fyrra. Þáverandi forsætisráðherra, Mariano Rajoy, var harðlega gagnrýndur fyrir framgang sinn í því máli og missti stól sinn nýlega til sósíalistans Pedro Sanchez eftir vantrauststillögu sem kosið var um 1.júní.

Sanchez hefur gefið það út að hann ætli að ræða á ný við katalónsk yfirvöld um aðskilnaðar áform þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×