Erlent

Trump rífur skjöl sem lögð eru fyrir hann

Kjartan Kjartansson skrifar
Að sögn kunnugra rífur Trump allt sem ratar á skrifborð hans þegar hann er búinn að nota það. Aðstoðarmenn hafa reynt að venja hann af þeim sið, án árangurs.
Að sögn kunnugra rífur Trump allt sem ratar á skrifborð hans þegar hann er búinn að nota það. Aðstoðarmenn hafa reynt að venja hann af þeim sið, án árangurs. Vísir/EPA
Starfsmenn Hvíta hússins hafa þurft að tína upp skjöl sem Donald Trump Bandaríkjaforseti rífur og láta líma þau saman aftur til að koma í veg fyrir að forsetinn brjóti lög um varðveislu gagna. Trump er sagður hafa haft þann vana lengi að rífa öll skjöl sem hann fær um leið og hann hefur lokið við að skoða þau.

Að sögn bandaríska blaðsins Politico rífur Trump skjölin og hendur þeim í ruslið eða á gólfið. Lögum samkvæmt ber forsetanum hins vegar að varðveita öll minnisblöð, tölvupósta og skjöl sem hann snertir. Þau eru send til Skjalasafns Bandaríkjanna sem geymir þau.

Aðstoðarmönnum forsetans hefur ekki tekist að venja Trump af því að rífa skjölin. Þeir hafa þess í stað tínt upp rifin skjölin og sent þau gagnaumsýslu Hvíta hússins.

„Við erum með límband, gegnsæju tegundina,“ segir Solomon Lartey sem starfaði áður sem skjalavörslusérfræðingur hjá Hvíta húsinu. Eftir þrjátíu ára störf við ríkisstjórnina var honum falið að púsla saman skjölunum sem forsetinn hafði rifið og líma þau aftur saman.

Fyrstu mánuði forsetatíðar Trump segir Lartey að öll deildin hans hafi unnið við það að líma saman skjöl frá forsetanum. Lartey var rekinn fyrirvaralaust og án skýringa í vor. Hann og annar starfsmaður deildarinnar sem vann við að líma gögnin saman og var einnig rekinn segja Politico að síðast í vor hafi þeir vitað til þess að opinberir starfsmenn ynnu við það að tjasla saman rifnum blaðsíðum frá forsetanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×