Innlent

Óvissa um framtíð Gistiskýlis við Lindargötu: Börn ítrekað orðið fyrir áreiti skjólstæðinga

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Á mánudaginn fjallaði Ísland í dag um Gistiskýlið við Lindargötu. Í skýlinu er pláss fyrir 26 næturgesti og er það hugsað sem neyðarrými fyrir þá sem eiga hvergi heima.

Uppi við skýlið er þétt ansi þétt byggð. Íbúar hverfisins hafa nokkrir tekið sig saman og fundað vegna skýlisins en að þeirra sögn stafar þeim daglega ógn af gestum þess.

Þá talar íbúi, sem kaus að koma nafnlaust fram, um að börn hafi ítrekað orðið fyrir áreiti af hálfu einstaklinga sem sækja Gistiskýlið og þau séu orðin hrædd og óttaslegin.

Þá nefnir hann einnig að íbúar hafa jafnframt ítrekað orðið fyrir því að eignir séu skemmdar, einstaklingar undir áhrifum vímuefna banki uppá, sitja á tröppum við hús þeirra og séu komnir langt inná þeirra persónulega svæði.

Dæmi eru um að fasteignasalar hafi lækkað fasteignamat vegna nábýlis við Gistiskýlið um 3 - 5% og það sé spurning um að íhuga skaðabótakröfu á hendur borginni.

Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir segir að um vissan vanda sé að ræða þar sem íbúðarbyggð er orðin þétt í kringum skýlið.

„Við höfum verið að skoða hvort hægt sé að skipta starfseminni upp. Hugsanlega þannig að á þeim stað sem að gistiskýlið er núna verði hjúkrunarheimili fyrir þá sem eru þannig staddir að þeir þurfi hjúkrun,“ segir Heiða Björg.

Þá telur hún að endurskipulagning á Gistiskýlinu yrði strax bót.

„Ég skil vel áhyggjur íbúanna í kring. Við verðum einhvern vegin að finna lausn á þessu þannig að allir geti lifað hér í sátt og samlyndi.“

Þó er krafa íbúa, sem kvartað hafa undan skýlinu, skýr – þau vilja að skýlið verði fært. 

Þá segir Heiða að ekki standi til að færa skýlið, en í velferðaráði Reykjavíkurborgar hafi verið rætt um að breyta því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×