Skoðun

Ný byggðaáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Alþingi samþykkti þann 11. júní síðastliðinn þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára. Í mínum huga er hér um tímamóta­skjal að ræða sem vert er að fagna.

Áætlunin er afurð af víðtæku samráði um allt land. Ég ýtti verkefninu formlega úr vör sem byggðamálaráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í mars 2016. Drög að áætlun voru kynnt í ríkisstjórn í janúar 2017 en nauðsynlegt reyndist að þróa hana áfram og var það gert í nánu samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sú góða vinna hefur nú leitt til þeirrar farsælu niðurstöðu sem byggðaáætlun 2018 til 2024 er.

Byggðaáætlun er í fyrsta skipti lögð fram með skýrum og mælanlegum markmiðum. Markmið stjórnvalda í byggðamálum eru að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Meðal mælikvarða sem stuðst verður við eru hlutfall heimila og fyrirtækja í dreifbýli með aðgang að ljósleiðaratengingu og hlutfall íbúa sem eru í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, grunnskóla og dagvöruverslun. Við sem vinnum að framkvæmd og eftirfylgni áætlunarinnar sem og aðrir hafa því skýra mælistiku fyrir því hvernig okkur miðar áfram í að þróa byggð og búsetu hér á landi á jákvæðan og sjálfbæran hátt.

Aðgerðir áætlunarinnar eru 54 og bera einstök ráðuneyti og stofnanir ábyrgð á framkvæmd þeirra. Meðal aðgerða sem unnið verður að á tímabilinu er gerð þjónustukorts sem sýni með myndrænum hætti aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Við lok verkefnis liggi fyrir gagnagrunnur sem hægt verði að nýta til frekari stefnumörkunar og mótunar aðgerðaáætlunar í byggðamálum. Þá verður með fjarheilbrigðisþjónustu leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg við mótun nýrrar byggðaáætlunar.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra




Skoðun

Sjá meira


×