Erlent

Eiginkonan lést og prinsinn slasaðist

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Norodom Ranariddh og Ouk Phalla voru á leið á fund með stuðningsmönnum.
Norodom Ranariddh og Ouk Phalla voru á leið á fund með stuðningsmönnum. Vísir/Getty
Kambódískur prins slasaðist og eiginkona hans lést þegar leigubíll ók í veg fyrir bifreið þeirra hjóna. Prinsinn, Norodom Ranariddh, og eiginkona hans, Ouk Phalla, voru flutt á sjúkrahús í suðvesturhluta landsins. Phalla lést af sárum sínum nokkrum klukkustundum síðar.

Þau höfðu verið á leið á fjöldafund með stuðningsmönnum prinsins, sem jafnframt gegndi eitt sinn stöðu forsætisráðherra Kambódíu, þegar slysið varð.

Hálfbróðir prinsins fer nú fyrir stjórnmálaflokki sem hefur sett sig upp á móti þingkosningunum, sem fram fara í Kambódíu í júlí.

Kambódísk stjórnmál hafa verið róstusöm á undanförnum árum. Stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins var til að mynda leystur upp í fyrra og formaður hans kærður fyrir landráð.

Forsætisráðherra Kambódíu, Hun Sen, hefur í raun stýrt landinu eftir eigin höfði síðastliðin 33 ár. Hann hefur sætt gagnrýni fyrir að nýta sér dómstóla og öryggissveitir landsins til að hefna sín á pólitískum andstæðingum sínum.

Hinn fyrrnefndi Ranariddh og Sen voru báðir forsætisráðherrar á árunum 1993 til 1997. Þá leiddi Sen uppreisn gegn þeim fyrrnefnda og sparkaði honum úr embætti. Prinsinn steig svo aftur inn á stjórnmálasviðið árið 2015, eftir að hafa náð sáttum við forsætisráðherrann Sen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×