Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Crossfitdrottningin skýtur öðrum ref fyrir rass

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Katrín Tanja er tekjuhæsti íþróttamaðurinn á Íslandi.
Katrín Tanja er tekjuhæsti íþróttamaðurinn á Íslandi.
Crossfitdrottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir er langtekjuhæsti íþróttamaðurinn á Íslandi ef marka má tekjublað DV sem kom út í dag.

Mánaðarlaun hennar eru 4,023 milljónir á mánuði og er hún langt fyrir ofan næsta mann á lista DV yfir tekjuhæstu íþróttamenn landsins. Hafþór Júlíus Björnsson, nýkrýndur sterkasti maður heims, er í 2. sæti með 2,64 milljónir á mánuði.

Gunnar Nelson sem raðað hefur sér ofarlega á þennan lista undanfarin þrjú ár er í 3. sæti með 1,598 milljónir á mánuði.

Á listanum er ekki að finna tekjur íslenskra atvinnumanna á borð við Gylfa Sigurðsson eða Söru Björk Gunnarsdóttur en reikna má með þeir væru ofarlega á listanum.

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, er í fjórða sæti með 1,353 milljónir á mánuði og eftirmaður hans í starfi, Guðni Bergsson, er í 6. sæti með 1,205 milljónir á mánuði. Á milli þeirra í 5. sæti er Reynir Leósson, fyrrverandi knattspyrnumaður sem meðal annars er álitsgjafi Pepsi-markanna. Laun hans á síðast ári voru 1,272 milljónir á mánuði.

Listinn er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2017 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×