Innlent

18 stig á Norðausturlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vopnfirðingar verða eflaust léttklæddir í dag.
Vopnfirðingar verða eflaust léttklæddir í dag. Vísir
Hæðarsvæði sem nú færist austur yfir landið mun að sögn Veðurstofunnar stjórna veðrinu í dag og á morgun.

Gera má ráð fyrir hægri breytilegri átt í fyrstu en á morgun, þegar að hæðin er komin yfir Færeyjar, mun snúast í hæga suðvestlæga átt.

Jafnframt verður loftið hlýtt og rakt og kann því að vera skýjað víða á landinu. Veðurstofan segir að það eigi ekki síst við um Suður- og Vesturland þar sem búast má við því að hitinn verði á bilinu 8 til 13 stig. Það verður þó ívið hlýrra á Norðausturlandi þar sem sólin mun skína nokkuð óáreitt. Þar er búist við allt að 18 stiga hita í dag og kann hann að fara upp í 20 stig á morgun.

Þegar kólnar svo í kvöld munu þokubakkar myndast aftur, einkum við sjávarsíðuna um norðanvert landið.

Veðurhorfur á landinu í dag

Á miðvikudag:

Hæg suðlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en sums staðar þokuloft með ströndinni. Hiti 9 til 19 stig, hlýjast í innsveitum norðaustanlands. 

Á fimmtudag:

Suðvestlæg átt 3-10 m/s. Skýjað með köflum um landið vestanvert og súld á stöku stað. Hiti 8 til 12 stig. Bjart að mestu austantil á landinu og hiti að 20 stigum. 

Á föstudag:

Suðvestan 3-10 og skýjað og þurrt vestanlands en víða bjartvirði austantil. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast um landið norðaustanvert. 

Á laugardag:

Sunnan 5-13 og rigning með köflum en bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 8 til 13 stig að deginum en 13 til 18 fyrir norðan. 

Á sunnudag:

Fremur hæg vestlæg átt. Skýjað og smásúld eða þokuloft, en úrkomulítið um landið austanvert. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast austast. 

Á mánudag:

Hæg vestlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt. Hiti 8 til 15 stig að deginum, hlýjast á Suðausturlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×