Innlent

Laun hækkað meira en íbúða- og leiguverð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Enn er skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
Enn er skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. VÍSIR/Egill
Leiguverð og íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað minna en launavísitala undanfarna 12 mánuði, ef marka má nýja mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Að sögn skýrsluhöfunda er þetta í fyrsta skipti síðan í júní 2016 sem 12 mánaða hækkun launa er meiri en hækkun bæði leigu- og íbúðaverðs. Undanfarið ár hafi laun hækkað um 7,3, samanborið við 6,2% árshækkun leiguverðs á höfuðborgarssvæðinu og 5,4% hækkun íbúðaverðs.

Í skýrslunni segir jafnframt að á sama tíma og hægt hefur á hækkun fasteignaverðs hafa vextir á íbúðalánum haldið áfram að lækka.

„Þegar tekið er tillit til beggja þátta, þ.e. þróunar íbúðaverðs og vaxta, er greiðslubyrði af lánum vegna kaupa á dæmigerðri íbúð á höfuðborgarsvæðinu í mörgum tilfellum minni nú en ef sama íbúð hefði verið keypt fyrir ári síðan,“ segir á vef Íbúðalánasjóðs um útgáfu skýrslunnar.

Fólk sem kaupir íbúð til þess að leigja hana út og fjármagnar kaupin með íbúðaláni þurfi því „í mörgum tilfellum“ að greiða minna í vexti nú en það hefði gert fyrir ári síðan. Þrátt fyrir það hefur leiguverð haldið áfram að hækka undanfarið ár enda er skortur á leiguhúsnæði.

Nánar upplýsingar um skýrsluna, sem og skýrsluna sjálfa, má nálgast á vef Íbúðalánasjóðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×