Skoðun

Frítt í strætó

Ingvar Mar Jónsson skrifar
Dæmin sýna að það virkar, í Hasselt í Belgíu jókst aðsókn í strætó um 1300% á árunum 1997 til 2013 með slíkri aðgerð. Það er frítt í strætó í Færeyjum og á Akureyri sem hefur gengið vel.

Fyrir 5 árum voru íbúar Tallinn í Eistlandi spurðir í íbúakosningu hvort þeir vildu fríar almenningssamgöngur. Þeir vildu það og aðgerðin tókst vel því Tallinn varð í kjölfarið eftirsóttari staður til að búa á. Ekki nóg með það heldur jukust tekjur borgarinnar vegna þess að fleira fólk vildi búa í borginni og þar með jukust skatttekjur langt umfram það sem kostar að hafa fríar almenningssamgöngur. En hvers vegna? Vegna þess að fríar almenningssamgöngur hvetja fólk til að ferðast á milli staða borgarinnar og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða, t.a.m. verslanir, leikhús, veitingastaðir og söfn. Hagkerfið nýtur góðs af aðgerðum sem þessum. Eistar eru að hugsa um að ganga enn lengra og hafa frítt í almenningssamgöngur í landinu öllu.

Áður en almenningssamgöngur voru fríar í Tallinn var mikil bílaumferð í borginni, eins og við upplifum nú í Reykjavík. Það er engin ástæða til að ætla annað en að frítt í strætó í Reykjavík muni virka jafn vel og það hefur gert annars staðar í heiminum. Þess vegna vill Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafa frítt í strætó. Það munu allir græða á því !

Fleiri borgir eru að átta sig á þeirri skynsemi sem felst í fríum almenningssamgöngum, t.d. nokkrar borgir í Póllandi, Þýskalandi og Frakklandi, jafnvel París. Fjölmargar borgir hafa prófað mismunandi útfærslur á fríum almenningssamgöngum. Má þar nefna frítt eða ódýrara í strætó um helgar eða á þeim tíma dags sem umferð er minni.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík er ekki á móti borgarlínu en okkur finnst mikilvægt að landsmenn séu upplýstir um kostnað við framkvæmd hennar. Talað hefur verið um að innviðauppbyggingin kosti u.þ.b. 70 milljarða króna og þá á eftir að kaupa vagnana sjálfa. Opinberar framkvæmdir fara að meðaltali 45% fram úr kostnaðaráætlun og ef það verður raunin með borgarlínu þá er verðmiðinn kominn yfir 100 milljarða króna. Það eru tæplega 2 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu. Að hafa frítt í strætó kostar lítið brot af þeirri upphæð eða um 1.9 milljarða á ári í áður greiddum fargjöldum.

Áður en farið er af stað í kostnaðarsamar óafturkræfar framkvæmdir við borgarlínu prófum þá fyrst að hafa frítt í strætó í eitt ár og sjáum svo til með framhaldið. Getum við ekki verið sammála um það?

Hlekkur á blaðagrein um fríar almenningssamgöngur íTallin

Höfundur er oddviti Framsóknar í borgarstjórnarkosningum 26. maí.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×