Fótbolti

„Brandari“ að nota ekki myndbandsdómara í Meistaradeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
James Pallotta er forseti Roma
James Pallotta er forseti Roma vísir/getty
Forseti Roma segir það algjöran brandara ef myndbandsdómgæsla verður ekki innleidd í Meistaradeild Evrópu eftir að félagið var slegið út úr keppninni í gær í ótrúlegu einvígi við Liverpool.

Ítalska liðið beið lægri hlut 7-6 samanlagt eftir að hafa unnið seinni leikinn á heimavelli 4-2. James Pallotta, forseti félagsins, sagði sitt lið hafa átt að fá tvær vítaspyrnur í leiknum.

„Ég veit það er erfitt að vera dómari en það er vandræðalegt að við töpum svona. Þú getur ekki látið svona hluti gerast,“ sagði Pallotta eftir leikinn.

Loris Karius felldi Edin Dzeko innan vítateigs snemma í seinni hálfleik en Bosníumaðurinn var dæmdur rangstæður, sem virtist vera rangur dómur. Stuttu seinna virtist Trent Alexander-Arnold handleika knöttinn innan vítateigs.

„Þið getið séð þetta sjálf. Hann var ekki rangstæður á 49. mínútu og var felldur af markmanninum. Svo var þetta augljós hendi, allir í heiminum gátu séð það nema fólkið á vellinum. Hefði átt að vera rautt spjald.“

„Ef það verður ekki myndbandsdómgæsla í Meistaradeildinni þá er það algjör brandari,“ sagði Pallotta.

Forseti UEFA hefur áður sagt að hann vilji ekki fá myndbandsdómgæslu inn í Meistaradeild Evrópu.


Tengdar fréttir

Forseti UEFA vill ekki VAR í Meistaradeildina

Myndbandsdómarar (VAR) verða ekki notaðir í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili því forseta UEFA þykir kerfið valda of miklum usla og misskilningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×