Erlent

Kosið í fyrsta sinn í nærri áratug

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Talningamenn að störfum.
Talningamenn að störfum. Vísir/afp
Líbanir kusu sér nýtt þjóðþing í gær en kosningarnar voru þær fyrstu í landinu í nærri áratug. Metfjölda kvenkyns frambjóðenda var að finna á kjörseðlinum.

128 sæti eru á líbanska þinginu en þeim er skipt jafnt milli þeirra sem eru múslimar eða kristnir. Frambjóðendur voru 583 en þar af voru 86 konur og hafa þær aldrei verið fleiri. Hver kjósandi hefur tvö atkvæði, eitt til að veita lista að eigin vali og annað til handa sérstökum frambjóðanda. 3,8 milljónir voru á kjörskrá en þar af voru um 800 þúsund fyrstu kjósendur. Um helmingur kjósenda mætti á kjörstað.

Þingkosningar fóru síðast fram í Líbanon árið 2009 en mikið hefur gengið á frá þeim tíma. Þegar stríðið í nágrannaríkinu Sýrlandi hófst framlengdi þingið kjörtímabilið um fram þau fjögur ár sem lög kveða á um.

Það tímabil gekk ekki áfallalaust fyrir sig en óánægja íbúa var umtalsverð. Hún náði hámarki árið 2015 með „sorpkrísunni“ svokölluðu en þá mistókst stjórnvöldum að tryggja sorphirðu í höfuðborginni Beirút. Þá var landið án forseta í tvö ár á þessu tímabili.

„Það er ekkert vatn, ekkert rafmagn, ekkert almannatryggingakerfi, engin heilsugæsla og engin lífeyrissjóðsréttindi. Mun eitthvað af því breytast ef ég kýs? Nei,“ sagði óánægður bóksali við Al-Jazera.

Niðurstöður kosninganna munu liggja fyrir í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×