Enski boltinn

Mega ekki kaupa miða á leikinn nema ef þeir hafa keypt áður miða á Etihad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk mikið á fyrir utan Anfield þegar liðin voru að mæta í fyrri leikinn.
Það gekk mikið á fyrir utan Anfield þegar liðin voru að mæta í fyrri leikinn. Vísir/Getty
Miklar öryggisaðgerðir verða í gangi í Manchester í kvöld í tengslum við seinni leik Manchester City og Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Liverpool vann 3-0 sigur í fyrri leiknum en þá réðust stuðningsmenn Liverpool á liðsrútu Manchester City á leiðinni á völlinn. Rútan skemmdist illa og þurfti að kalla til nýja rútu lið að flytja liðsmenn Manchester City til baka frá Anfield.

Liverpool fordæmdi strax hegðun stuðningsmanna sinna og baðst afsökunar en félagið á yfir höfðu sér þunga sekt frá UEFA. UEFA tekur þó málið ekki fyrir fyrr en eftir tímabilið.

Forráðamenn Manchester City og lögreglan í Manchester ætlar hinsvegar ekki að taka neina áhættu í kvöld og hefur kallað til fleiri lögreglumenn og öryggisverði á vakt en venjan er í kringum leiki liðsins á Etihad-leikvanginum.





Liðsrútur Manchester City og Liverpool munu heldur ekki keyra í gegnum mannfjöldan heldur fara þær báðar beint inn í undirgöng sem enda í bílastæðahúsi undir leikvanginum.

Vandræða stuðningsmönnum Liverpool verður líka gert erfiðara fyrir að skapa usla meðal stuðningsfólks Manchester City.

Til þess að geta keypt miða þar sem stuðningsfólk Manchester City verður á leiknum þá þarf viðkomandi að hafa keypt áður miða á leikinn. Þetta á að koma í veg fyrir að stuðningsmenn Liverpool kaupi sér sæti inn á milli stuðningsmanna City.

„Það hefur aldrei verið vesen á áhorfendum á þessum velli síðan ég kom,“ sagði Pep Guardiola og nú er bara að vonast til þess að það breytist ekki í kvöld.

Leikur Manchester City og Liverpool hefst klukkan 18.45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×