Erlent

Rússar og Bandaríkjamenn tókust á um viðbrögð vegna efnavopnaárásar

Birgir Olgeirsson skrifar
Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjamanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjamanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Vísir/AFP
Rússar og Bandaríkjamenn tókust nokkuð harkalega á, á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag, vegna notkunar efnavopna í Sýrlandi.

Greint er frá fundinum á vef Reuters en þar kemur fram að bandarísk yfirvöld, ásamt bandamönnum þeirra, íhugi hernaðaraðgerðir gegn her Sýrlandsstjórnar vegna efnavopnaárásar um liðna helgi.

Yfirvöld í Moskvu er alfarið mótfallin aðgerðum vesturlanda gegn stjórn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, sem hefur lengi notið stuðnings Rússa. Hafa Rússar beitt neitunarvaldi tólf sinnum í öryggisráðinu þegar aðgerðir gegn stjórninni hafa verið ræddar.

Fór það svo að fulltrúar Rússa og fulltrúar Bandaríkjamanna í ráðinu komu í veg fyrir lausnir beggja þegar kemur að viðbrögðum vegna efnavopnaárásarinnar.

Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjamanna í öryggisráðinu, sagði á fundinum að lausn Bandaríkjamanna væri það minnsta sem þjóðirnar gætu gert vegna málsins.

„Sagan mun sýna að á þessum degi völdu Rússar að standa með skrímsli í stað þess að verja líf Sýrlendinga,“ er haft eftir Haley á vef Reuters.

Að minnsta kosti sextíu létu lífið og þúsund særðust í þessari árás á bæinn Douma síðastliðinn laugardag. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×