Skoðun

Þurrt þing

Davíð Þorláksson skrifar
Það er sárasjaldan sem ég nenni að fylgjast með umræðum á Alþingi. Hápunktur hvers þings er stefnuræða forsætisráðherra sem tók síðast 16 mínútur. Fram fóru þrjár umferðir þar sem allir átta þingflokkarnir fengu að tala í þeim öllum. Níu mínútur í fyrstu umferð, fimm í annarri og fjórar í þriðju. Alls eru þetta tveir klukkutímar og 45 mínútur sem er bæði útvarpað og sjónvarpað. Umræðan náði ekki inn á lista yfir þá tíu dagskrárliði RÚV sem fengu mest áhorf þá vikuna, og skyldi engan undra.

Stefnuræða ríkisstjórnar Bretlands, sem drottningin flytur fyrir hennar hönd, er minna en tíu mínútur. Í vikulegum fyrirspurnatíma forsætisráðherra Bretlands skiptast þingmenn á að spyrja hana stuttra hnitmiðaðra spurninga sem eru aldrei lengri en mínúta og yfirleitt styttri. Svörin eru að sama skapi líka stutt og alltaf styttri en mínúta. Allir tala úr sætum sínum sem flýtir fyrir og gerir umræðuna snarpari. Alls tekur 45 mínútur að fara yfir helstu mál vikunnar. Á Alþingi geta fyrirspurnir til ráðherra verið allt að þrjár mínútur og svörin fimm mínútur.

Eru málefni 350.000 manna landsins Íslands virkilega svo flókin að þau kalli á miklu lengri umræður en í 66 milljóna landinu Bretlandi? Ef alþingismenn myndu tala úr sætum og stytta mál sitt um a.m.k. helming væri e.t.v. einhver von til þess að einhverjir nenntu að fylgjast með því sem fram fer án þess að það þurfi að bitna á gæðum umræðunnar. Ekki veitir af að kjósendur fylgist betur með því hvað þingmenn eru að gera.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×