Skoðun

Styttum vinnuvikuna

Líf Magneudóttir skrifar
Við ættum að vera stórhuga og stytta verulega vinnuvikuna. Reynslan af tilraunaverkefninu okkar í Reykjavík, sem rímar við reynslu annars staðar í heiminum, hefur sýnt að það hefur margvísleg áhrif til góðs á samfélagið.

Þeir sem vinna færri en 40 stundir á viku eru afkastameiri hverja unna klukkustund en þeir sem vinna lengri vinnudag. Lífsgæðin versna því ekki við þetta heldur aukast. Rannsóknir sýna að landsframleiðsla er ekki meiri í þeim löndum þar sem vinnuvikan er lengri. Streita minnkar, veikindadögum fækkar og fólk er ánægðara í vinnunni.

Auk þessara kosta myndast meira svigrúm til að sinna fjölskyldu, börnum og maka, ættingjum, vinum og samferðafólki okkar. Við fáum þannig meiri tíma með þeim sem okkur þykir vænt um og getum frekar sinnt frístundum eða tekið þátt í samfélagslegum verkefnum. Styttri vinnuvika styrkir því lýðræðið, bætir samskipti og eflir innviði samfélagsins.

Við stuðlum að meiri samfélagslegum jöfnuði með styttri vinnuviku. Forsendan fyrir framgangi í starfi felst ekki aðallega í löngum vinnudegi. Með styttri vinnuviku dregur úr kostnaði við umönnun barna, hraðinn í atvinnulífinu minnkar og færir okkur frá hugmyndinni um að vinnan sé tilgangur lífsins. Vistspor okkar minnkar, meiri tími gefst til að lifa sjálfbærara lífi og draga úr óþarfa neyslu og notkun einkabílsins.

Að auki felst í þessu fyrirkomulagi auðveldari aðlögun að því að minnka við sig vinnu þegar líður á ævina og undirbúa eftirlaunaárin. Viðbrigðin við að hætta að vinna, sem oft stuðlar að veikindum, kvíða og þunglyndi, yrðu einfaldlega ekki eins mikil. Almenningsviðhorfið í þessum efnum getur breyst ansi hratt með róttækum aðgerðum. Við förum fljótt úr vanþóknun yfir í velþóknun. Ég lít svo á að þessi litlu en mikilvægu skref sem stigin hafa verið með tilraunaverkefnið í Reykjavíkurborg séu upphafið að samtali á landsvísu – samtali milli stjórnvalda, verkalýðshreyfinga, atvinnurekenda og almennings. Það yrði heillavænlegt skref, sem við Vinstri græn lögðum til á sínum tíma að yrði stigið, í átt að betra og manneskjulegra samfélagi. Til hamingju, Reykjavík, með það.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×