Erlent

May segir vísbendingar um ábyrgð Sýrlandsstjórnar á efnavopnaárás

Kjartan Kjartansson skrifar
Ummæli May í dag eru sögð skýrustu merkin um að hún sé tilbúin að láta Bretland taka þátt í hernaðaraðgerðum í Sýrlandi.
Ummæli May í dag eru sögð skýrustu merkin um að hún sé tilbúin að láta Bretland taka þátt í hernaðaraðgerðum í Sýrlandi. Vísir/AFP
Allt bendir til þess að sýrlensk stjórnvöld hafi borið ábyrgð á efnavopnaárás í bænum Douma um helgina, að sögn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Hún staðhæfir að athæfi Sýrlandsstjórnar verði ekki látið óátalið.

May sagði fréttamönnum í dag að ríkisstjórn hennar ynni með bandalagsþjóðum að því að koma í veg fyrir og fæla þjóðir frá því að beita efnavopnum. Þau ætli að tryggja að þeir sem stóðu að árásinni verði dregnir til ábyrgðar, að því er segir í frétt Reuters.

Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist taka í sama streng í tísti í morgun. Þar varaði hann Rússa, sem hafa stutt ríkisstjórn Bashars al-Assad hernaðarlega, við yfirvofandi eldflaugaárásum og ráðlagði þeim að leggja ekki lag sitt við „gasdrepandi skepnu“. Virtist hann þar vísa til Assad sem hann fullyrti að nyti þess að myrða eigin þegna.

Skömmu seinna virtist Bandaríkjaforseti þó draga í land þegar hann tísti um hversu slæm samskipti Rússa og Bandaríkjamanna væru orðin. Spurði hann hvort að stöðva ætti „vopnakapphlaup“.

Hjálparstarfsmenn í Douma hafa greint frá því að 40-70 manns hafi fallið í efnavopnaárás þar um helgina. Bæði Rússar og Sýrlandsstjórn hafa þvertekið fyrir að hafa staðið að slíkri árás. Rússar beittu neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær til að koma í veg fyrir sjálfstæða rannsókn á árásinni í Douma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×