Enski boltinn

Króatinn í Liverpool öskraði á liðsfélagana í hálfleik og kveikti í sínum mönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dejan Lovren fagnar sigri í leikslok.
Dejan Lovren fagnar sigri í leikslok. Vísir/Getty
Það var Dejan Lovren af öllum mönnum sem hafði sig mest í frammi í hálfleik á leik Liverpool og Manchester City í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið.

Manchester City var 1-0 yfir í hálfleik og hafði skorað mark skömmu fyrir hlé sem var ranglega dæmt af. Það stefndi því allt í mjög erfiðan seinni hálfleik fyrir Liverpool sem hafði samt 3-0 forskot frá fyrri leiknum.

Liverpool menn komu hinsvegar mjög sterkir til baka í seinni hálfleik, skoruðu tvö mörk og tryggðu sér annan Meistaradeildarsigurinn á Manchester City á aðeins sex dögum.

„Ef ég segi alveg eins og er þá öskraði ég aðeins í hálfleik,“ sagði Króatinn Dejan Lovren í viðtali við Telegraph.

„Ég sagði strákunum að vakna því þetta var ekki nógu gott og við vorum alltof aftarlega. Auðvitað sagði Klopp að við værum of aftarlega af því að vörnin væri ekki að ýta liðinu upp á völlinn,“ sagði Lovren.





„Klopp vildi að ég og Virgil værum þéttari og að við reyndum að ýta liðinu meira upp völlinn en það var mjög erfitt þegar City var með boltann. Þetta var samt allt á jákvæðu nótunum og engin neikvæðni í gangi,“ sagði Lovren og bætti við:

„Ég þurfti bara að minna strákana aðeins á það að við vorum 50 mínútum frá undanúrslitum Meistaradeildarinnar og að við þyrftum að gefa meira í leikinn,“ sagði Lovren.

„Við vorum alls ekki nógu góðir fyrstu 10 til 15 mínúturnar í leiknum. En ef fólk horfir aftur á seinni hálfleikinn þá voru þeir ekki að skapa mörg færi og ekkert dauðafæri,“ sagði Lovren.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×