Formúla 1

Sigurinn í Kína ekki nóg fyrir Ricciardo: „Vil keppa á besta bílnum“

Bragi Þórðarson skrifar
Ricciardo hefur verið í fjögur ár hjá Red Bull. Hann hafði betur í Kína um síðustu helgi gegn mönnunum tveim sem hann gæti tekið við af í lok tímabilsins; Bottas og Raikkonen
Ricciardo hefur verið í fjögur ár hjá Red Bull. Hann hafði betur í Kína um síðustu helgi gegn mönnunum tveim sem hann gæti tekið við af í lok tímabilsins; Bottas og Raikkonen Vísir/Getty
Samningur Daniel Ricciardo hjá Red Bull rennur út eftir þetta tímabil. Ökuþórinn segir sigurinn í Kína um síðustu helgi ekki vera næg ástæða til að halda sér hjá liðinu, sérstaklega þar sem sæti hjá Mercedes og Ferrari gætu opnast í lok tímabilsins.

„Ég vil keppa á besta bílnum, ég held að helgin sanni að ef ég fæ tækifæri til sigurs mun ég nýta það,“ sagði Ricciardo í áströlsku sjónvarpsviðtali. „Ef mér tekst að vinna nokkrar keppnir í viðbót með Red Bull lítur sá kostur vel út, ef ekki, mun ég væntanlega fara eitthvað annað.“

Daniel tók við af landa sínum Mark Webber hjá Red Bull árið 2014 en á þeim fjórum árum sem hann hefur verið í þeirra herbúðum hefur liðið ekki getað keppt um titla. Aðal ástæða þess er að Renault vélin hefur einfaldlega ekki skilað nægilegri orku miðað við Ferrari og Mercedes.

Hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir Ricciardo?

Samningar Lewis Hamilton og Valtteri Bottas hjá Mercedes renna báðir út eftir þetta tímabil. Það er talið líklegt að Hamilton muni framlengja við þýska bílaframleiðandan en Bottas gæti ekki fengið þann möguleika. Það fer allt eftir árangri Finnans á þessu tímabili en eins og staðan er núna lítur út fyrir að Bottas haldi sæti sínu.

Sebastian Vettel er samningsbundinn Ferrari út árið 2020 en samningur liðsfélaga hans, Kimi Raikkonen, rennur út í lok þessa árs. Það er talið afar líklegt að hinn 38 ára Raikkonen hætti eftir tímabilið.

Ef Ricciardo ákveður að fara til Ferrari er mjög líklegt að hann verði bara notaður sem varaskeifa fjórfalda heimsmeistarans Sebastian Vettel. Þessir ökumenn hafa þó reynslu af því að vera liðsfélagar, þeir óku saman hjá Red Bull árið 2014. Þá var það Ástralinn sem hafði yfirhöndina en Ferrari er ekki hrifið af því að vera með tvo ökumenn að berjast við hvorn annan, sem gæti minnkað áhuga Ricciardo.

Það er þó annað upp á teningnum hjá Mercedes eins og liðið sýndi í slagnum milli Nico Rosberg og Lewis Hamilton frá 2014 til 2016. Spurningin er þó hvort liðið hafi áhuga á öðrum svoleiðis slag. Toto Wolff, stjóri Mercedes, hefur lýst áhuga sínum á Ricciardo sem og Frakkanum Esteban Occon sem ekur fyrir Force India. Það verður því áhugavert að sjá hvað Ástralinn ákveður í lok tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×