Enski boltinn

Guardiola lofar sóknarbolta á Anfield í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola á blaðamannafundinum fyrir leikinn.
Pep Guardiola á blaðamannafundinum fyrir leikinn. Vísir/Getty
Það stefnir í skemmtilegt kvöld á Anfield í Liverpool en tvö sókndjörfustu lið enska boltans mætast þá á stóra sviðinu.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, mætir líka með lið sitt í sóknarhug á Anfield í kvöld í fyrri leik City og Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Guardiola lofaði því á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann ætlaði að láta sitt lið spila sóknarbolta á Anfield í kvöld.

Kannski verður sóknin „besta“ vörnin en í síðasta leik liðanna á Anfield þá voru skoruð sjö mörk í 4-3 sigri Liverpool og fjöldi dauðafæra til viðbótar litu dagsins ljós.

„Ég veit að leikstíll okkar er fullkominn fyrir Liverpool af því að það er það lið sem sækir betur í opin svæði en nokkurt annað lið í heiminum. Þetta á sérstaklega við þá (Sadio) Mane, (Mohamed) Salah, (Roberto) Firmino, sem eru svo góðir leikmenn,“ sagði Pep Guardiola.

„Samt sem áður þá finnst mér besta leiðin fyrir okkur vera að reyna að vinna þennan leik. Ef ég færi að tala um að liðið mitt ætlaði að breyta sínum leikstíl fyrir þennan leik þá myndu leikmenn mínir horfa á mig og segja: Þessi gæi er hræddur - stjórinn treystir okkur ekki,“ sagði Guardiola.

„Það væru mistök hjá mér að gera það,“ sagði Guardiola.





Manchester City hefur skorað 88 mörk í ensku úrvalsdeildinni og 19 mörk í Meistaradeildinni. Liverpool hefur skorað 75 mörk í ensku úrvalsdeildinni og 28 mörk í Meistaradeildinni.

Liðið í þriðja sæti yfir markaskorun í ensku úrvalsdeildinni er Tottenham sem hefur skorað þrettán deildarmörkum færra en Liverpool og 26 deildarmörkum færra en City.

„Bæði lið mun reyna að spila fótbolta. Við erum liðin sem skora flest mörk í ensku úrvalsdeildinni. Ég held að lið Jürgen Klopp beri virðingu fyrir góðum fótbolta. Þeir reyna að sækja og auðvitað munum við gera það líka. Ég er viss um að þetta verður góður leikur,“ sagði Guardiola.

Leikur Liverpool og Manchester City hefst klukkan 18.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×