Fótbolti

Pep: Átti ekki von á þessu frá virtu félagi eins og Liverpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Öryggisverðir áttu fótum sínum fjör að launa er flöskunum byrjaði að rigna yfir rútuna.
Öryggisverðir áttu fótum sínum fjör að launa er flöskunum byrjaði að rigna yfir rútuna. vísir/afp
Leikmenn Man. City fengu ansi kaldar kveðjur er þeir mættu á Anfield í gær enda var ráðist á rútu liðsins og hún skemmd svo mikið að ekki var hægt að keyra hana til baka.

Enginn frá Man. City meiddist í látunum en tveir lögreglumenn særðust við að reyna að halda aftur af ólátabelgjunum.

Liverpool hefur beðist afsökunar á þessu atviki sem félagið segir vera algera óásættanlegt.

Rútur liðanna fóru ekki sína hefðbundnu leið á völlinn þar sem vegaframkvæmdir voru í gangi. Eitthvað hefur síðan farið úrskeiðis er skipulagt var hvaða leið átti að fara.

Er rútan kom fyrir utan völlinn beið þar fjöldi manna sem kastaði flöskum, dósum og blysum í rútuna.

„Venjulega þegar lögreglan veit hvað er að fara að gerast þá reynir hún að koma í veg fyrir svona uppákomur. Við skulum ekki gleyma því hvað kom fyrir í Dortmund á síðasta ári. Við komum hingað til þess að spila fótbolta og ég skil ekki af hverju var ráðist á rútuna,“ sagði Pep Guardiola, stjóri Man. City, eðlilega hundfúll.

„Rútan er ónýt og ég átti ekki von á þessu frá virtu félagi eins og Liverpool. Þetta er ekki Liverpool. Þetta er fólkið og kannski bara 2-3 og vonandi gerist svona aldrei aftur.“

Leikmenn City neituðu að nota þessa árás sem afsökun fyrir 3-0 tapinu. Þeir sögðu þetta ekki hafa haft nein áhrif á sig.

Þetta voru mikil læti.vísir/getty

Tengdar fréttir

Stuðningsmenn Liverpool eyðilögðu rútu City

Liverpool hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið biðst afsökunar á skemmdarverkum á liðsrútu Manchester City fyrir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Pep: Þeir áttu tvær sóknir og skoruðu tvö mörk

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sagðist enn hafa trú á því að lið hans gæti farið áfram í Meistaradeild Evrópu eftir 3-0 tap fyrir Liverpool á Anfield í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×