Enski boltinn

Sterling hefur enn ekki náð að gera neitt á móti sínu gamla félagi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling kemst ekkert áfram á móti Jordan Henderson og félögum.
Raheem Sterling kemst ekkert áfram á móti Jordan Henderson og félögum. Vísir/Getty
Raheem Sterling er ekki vinsæll meðal stuðningsmanna Liverpool sem púa á hann við hvert tækifæri.

Sterling kom inná sem varamaður í leik Manchester City og Liverpool í Meistaradeildinni í gær og fékk heldur betur að heyra það frá Anfield.

Raheem Sterling yfirgaf félagið sem gaf honum tækifærið til að blómsta og vildi frekar fara til Manchester City til að geta unnið eitthvað. Það fór ekki vel í Liverpool fólk.

Síðan þá hafa leikir Manchester City og Liverpool verið hrein martröð fyrir Raheem Sterling og hann er ekki að finna sig í þessu fjandsamlega umhverfi.





Leikurinn í gær var hans sjöundi á móti Liverpool eftir að hann yfirgaf Anfield og Raheem Sterling hefur hvorki náð að skora mark eða leggja upp mark í þessum leikjum. Hann hefur aftur á móti fengið tvö gul spjöld.

Það sem meira er, Manchester City hefur aðeins unnið einn þessara leikja og sá sigur kom í vítaspyrnukeppni. Það var reyndar fyrsti titilinn sem Raheem Sterling vann með Manchester City.

Raheem Sterling var í leikbanni þegar Manchester City vann 5-0 sigur á Liverpool fyrr á þessu tímabili.

Alls hefur Raheem Sterling nú spilað í 539 mínútur á móti Liverpool síðan að hann yfirgaf Anfield án þess að koma að marki. Markatalan í þessum sjö leikjum er -11 (6-17)

Leikir Raheem Sterling á móti Liverpool:

2015-16:

90 mínútur í 4-1 tapi á heimavelli

45 mínútur í 3-0 tapi á útivelli

120 mínútur í sigri í vítakeppni í úrslitaleik enska deildabikarsins

2016-17:

90 mínútur í 1-0 tapi á útivelli

90 mínútur í 1-1 jafntefli á heimavelli

2017-18

71 mínúta í 4-3 tapi á útivelli

33 mínútur í 3-0 tapi á útivelli í Meistaradeildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×