Innlent

Búið að opna fyrir rafrænar ábendingar til Barnaverndar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur er til húsa í Borgartúni.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur er til húsa í Borgartúni. Vísir/Daníel
Búið er að opna tilkynningarsíðu Barnaverndar á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Á síðunni er hægt að velja hnapp eftir eðli mála og senda þannig tilkynningar beint til viðeigandi aðila. Um er að ræða lið í aðgerðaráætlun velferðarsviðs í kjölfar þess að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur var kærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

„Á síðunni er hægt að velja rafrænan ábendingarhnapp sem sendir tilkynningar til barnaverndar þegar ástæða þykir til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni, ofbeldi eða að barnið stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu,“ segir um hnappinn í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þá er annar hnappur á síðunni ætlaður tilkynningum vegna starfsfólks. Í tilkynningu kemur fram að hnappurinn sé hugsaður í þeim tilvikum þar sem „ástæða er til að ætla að atferli starfsfólks, sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn, sé stórlega ábótavant.“

Þriðji og síðasti hnappurinn á síðunni leiðir fólk að sambærilegri síðu á ensku og pólsku.

Hnapparnir þrír líta svona út á tilkynningarsíðu Reykjavíkurborgar.Skjáskot/Reykjavíkurborg
Eins og áður hefur komið fram er tilkynningarsíðan hluti af aðgerðaráætlun velferðarsviðs um barnaverndarúrræði og aðra þjónustu við börn í kjölfar máls sem upp kom vegna starfsmanns, sem starfaði með börnum.

Greint var frá því í fyrradag að rannsókn á máli mannsins sé lokið en málið var sent til héraðssaksóknara fyrir páska. Maðurinn, sem starfaði sem stuðningsfulltrúi, er grunaður um kynferðisbrot gegn sjö börnum.

Téðir hnappar gera almennum borgurum kleift að tilkynna á fljótlegan hátt um misfellur í aðbúnaði barna eða tilkynna um hegðun einstaklings, sem starfar með börnum. Áfram er hægt að tilkynna til Barnaverndar Reykjavíkur í síma 411 1111 og í 112 í neyðartilvikum eftir lokun og einnig er hægt að senda á netfangið barnavernd@reykjavik.is, að því er fram kemur í tilkynningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×