Skoðun

Leynigesturinn

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
„Ég ætla alltaf að fá skólamat,“ sagði tíu ára sonur minn eftir fyrsta daginn í nýjum grunnskóla. „Það er flatbaka á föstudögum og á öðrum dögum eru pylsur og hamborgarar.“

Víða í okkar vestræna heimi er að finna fæði sem inniheldur leynigest sem er orsök háþrýstings sem veldur flestum ótímabærum dauðsföllum á heimsvísu eða 7,5 milljónum ár hvert. Háþrýstingur mælist hjá um 40% fólks yfir 25 ára.

Oftast verðum við ekki vör við leynigestinn því bragðlaukarnir aðlagast honum hratt. Hann leynist í heimilismat eins og brauði, ostum, beikoni, skinku og flestum tilbúnum réttum og skyndibitum. Hann er vinsæll því hann eykur geymsluþol matvæla og losar dópamín í heilanum.

Þessi leynigestur er salt. Flestir innbyrða tvöfalt meira af salti en telst innan heilbrigðra marka sem er minna en teskeið á dag (5 g, viðmið er minna fyrir börn). Mikil saltneysla eykur hættu á háþrýstingi því saltið dregur að sér vatn og eykur rúmmál æðakerfisins. Hægt og hljóðlega getur ómeðhöndlaður háþrýstingur valdið skemmdum víða í líkamanum sem geta leitt til dauða.

Að minnka saltneyslu er ein hagkvæmasta aðgerð sem ríki geta ráðist í til að bæta heilsu þjóðar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) bendir á að stjórnvöld geti beint neyslu í átt að hollara fæði og fylgjast skuli með þróun saltneyslu í skólum.

Sjálf getum við gert hluti eins og að salta matinn okkar minna, hafa ekki saltstauka á borðum og velja matvöru með minna saltinnihaldi.

Strákurinn minn fær ennþá skólamat og við borðum saltbættan mat meðvituð um að leynigesturinn hefur hreiðrað um sig í flestum mat sem kemur ekki beint úr smiðju náttúrunnar. Við verðum að snúa þessari þróun við.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×